Kurteisi
Kurteisi.
Kurteisi er eitt af því, sem konur meta mikils. Konan krefst þess, að henni sé veitt eftirtekt, að tekið sé tillit til hennar og henni sýnd kurteisi. En of mikið af öllu má þó gera, og of mikil kurteisi er hlægileg. Og karlmaður má aldrei gera sig hlægilegan í konuaugum.
Kurteisin verður því að vera innan vissra takmarka, og eg þarf ekki að taka það fram, að þú verður alt af að fylgja þeim 10 boðorðum, sem hér fara á eftir:
1. Ef kona missir eitthvað niður, átt þú að taka það upp og rétta henni með ofurlítilli hneigingu og viðeigandi brosi. Orð eru óþörf.
2. Þú átt ætíð að láta konu ganga inn eða út um dyr á undan þér og opna fyrir henni.
3. Þú átt ætíð að hjálpa konu í yfirhöfn, áður en þú ferð í þína yfirhöfn.
4. Þú átt ætíð að láta konu ganga á undan þér inn í vagn eða bifreið. Aftur á móti átt þú að ganga á undan til sætis í leikhúsi og vísa konunni á hennar sæti.
5. Þú átt ætíð að láta konu ganga á undan þér niður stiga eða tröppur, en á eftir þér upp.
6. Þegar þú gengur með konu á götu, átt þú ætíð að ganga þeim megin við hana, að hún þurfi aldrei að fara út á vagnagötuna, þótt hún þurfi að víkja til hliðar fyrir einhverjum.
7. Þegar þú heilsar konu á götu, átt þú að hneigja þig ofurlítið, taka ofan og setja ekki hattinn á höfuðið, fyr en hún er komin framhjá þér. — Í sambandi við þetta vil eg geta þess, að konum þykir mikið varið í, að þeim sé heilsað virðulega á götu, en þó eigi með neinum spjátrungsskap.
8. Þegar kona kemur þar inn, sem öll sæti eru skipuð, er það skylda þín að standa upp og bjóða henni sæti þitt.
9. Þegar kona teygir sig eftir einhverju, átt þú ætíð að vera reiðubúinn að veita henni hjálp.
10. Í fám orðum sagt, átt þú í allri umgengni þinni við konur að sýna kurteisi og riddaralegar dygðir.